Fyrr í dag mættust lið ÍA og ÍBV í Lengjubikar karla. Þetta var frestaður leikur sem átti að fara fram síðasta laugardag en vegna óveðurs komust Eyjamenn ekki til lands.
Í stuttu máli sagt áttu Skagamenn í litlum vandræðum með hið unga lið Eyjamanna. Stefán Teitur Þórðarson kom heimamönnum yfir strax á 9. mínútu með glæsilegu marki. Á 38. mínútu bætti Ólafur Valur Valdimarsson við öðru markinu eftir frábæra sókn og snilldar stoðsendingu frá Stefáni Teit. Áður en fyrri hálfleik lauk náði Hilmar Halldórsson að bæta við þriðja markinu og staðan 3-0 í hálfleik.
Seinni hálfleikurinn var betri af hálfu ÍBV þótt þeir næðu ekki að ógna Skarphéðni Magnússyni sem stóð í marki ÍA í fjarveru Árna Snæs Ólafssonar. Á 82. mínútu skoraði Alexander Már Þorláksson síðasta mark Skagamanna sem eftir sigurinn sitja í 2. sæti riðilsins með 6 stig eftir 3 leiki.
Upptöku af leiknum er að finna hér að neðan.
Комментарии